Heimsframleiðsla olíu gæti dregist saman um allt að fimmtung eftir sögulegan samning Samtaka olíuframleiðenda (OPEC) og annarra stórra framleiðenda sem binda á enda á verðstríð Sádí Arabíu og Rússlands. Eftirpsurn hefur dregist saman um allt að 30% á heimsvísu.

Heimsmarkaðsverð hækkaði um allt að 8% eftir að tilkynnt var um samninginn, en flökti þó mikið. Miðlarar efast um að samdrátturinn muni nema uppgefnum tölum, og búist er við að samdráttur eftirspurnar vegna kórónufaraldursins muni nema að lágmarki tvöföldum samdrætti framleiðslunnar.

Samtökin og aðrir stórir framleiðendur – sem stundum er vísað til sem OPEC+ – náðu upphaflega samkomulagi á fimmtudag , sem samþykkt var af Rússlandi, Bandaríkjunum og G20 ríkjunum á föstudag. Mexíkó fór hinsvegar fram á undanþágu og vildi fá að draga saman framleiðslu um lægra hlutfall en aðrir samningsaðilar, sem setti samninginn í uppnám.

Mexíkó fær undanþágu
Eftir þrýsting frá Bandaríkjunum samþykkti Sádí Arabía – meðlimur OPEC og stærsti olíuútflytjandi heims með um 16% markaðshlutdeild á heimsvísu – loks minni samdrátt Mexíkó en annarra í gær.

Samtökin sjálf hyggjast draga saman framleiðslu um 10 milljón tunnur á dag, en séu framlag annarra aðila samningsins og sá samdráttur sem mikil verðlækkun síðustu misseri hefur í för með sér meðtalin segjast samningsaðilar sjá fram á 20 milljón tunna samdrátt.

Efast um uppgefinn samdrátt
Markaðsaðilar eru þó efins um þær tölur. Samdráttur vegna verðlækkunar hefði komið til hvort eð var, og sú viðmiðunartala yfir framleiðslu fyrir samninginn sem notuð er við útreikningana sé ekki raunhæf.

Í frétt Financial Times um málið eru greinendur sagðir búast við undir 7 milljón tunna fækkun þegar tillit hefur verið tekið til þessa þátta. Haft er eftir einum greinanda að mikið sé um tvítalningu, „skapandi bókhald“ og reynt sé að villa fyrir í útreikningum OPEC+.