Um fjórðungur heimila á Íslandi, eða alls 24,1%, átti erfitt með að ná endum saman árið 2021. Hlutfallið hefur aldrei áður mælst jafnlágt, að því er kemur fram í frétt Hagstofu Íslands sem fjallar um bráðabirgðaniðurstöður úr lífskjararannsókn Hagstofunnar.

„Fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar var þung hjá tæplega 19% heimila árið 2021 sem er sambærilegt við árið 2020. Á sama tíma lækkaði hins vegar fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar á meðal heimila í eigin húsnæði úr rúmum 14% í tæp 10%. Árið 2021 bjuggu 4,2% heimila við skort á efnislegum gæðum, þar af 10,9% heimila á leigumarkaði en einungis 2,4% heimila sem búa í eigin húsnæði," segir í frétt Hagstofunnar.

Samkvæmt Hagstofunni bjuggu um 22% heimila á landinu í leiguhúsnæði árið 2021. Hlutfall heimila á leigumarkaði hafi verið um 28% árin 2011 og 2012 en rúmlega 31% árin 2017 og 2018. Síðan þá hafi hlutfallið farið lækkandi.

Eins og fyrr segir hefur hlutfall heimila sem á erfitt með að ná endum saman aldrei mælst lægra. Munu þessar niðurstöður að einhverju leyti vera í samræmi við tölur Hagstofunnar um kaupmátt ráðstöfunartekna heimila en hann jókst á sama tímabili. Til samanburðar áttu um 51% heimila í erfiðleikum með að ná endum saman árið 2011 og var hlutfallið yfir 40% á milli áranna 2010 og 2015.

„Þegar horft er til mismunandi heimilisgerða voru erfiðleikar við að ná endum saman á um helmingi heimila hjá einum fullorðnum með eitt eða fleiri börn á framfæri árið 2021 en á 16% heimila tveggja eða fleiri fullorðinna þar sem ekkert barn var búsett. Niðurstöðurnar benda því til þess að aukinn fjöldi fyrirvinna dragi úr erfiðleikum við að ná endum saman en að aukinn fjöldi barna á framfæri ýti undir erfiðleika við að láta enda ná saman," segir jafnframt í frétt Hagstofunnar.