Útlit er fyrir að flokksþing framsóknarmanna, sem fram fer þar næstu helgi, verði hið fjölmennasta sem haldið hefur verið. Alls 1.003 fulltrúar hafa rétt til setu á þinginu.

Nýr formaður Framsóknarflokksins verður kosinn á þinginu en Valgerður Sverrisdóttir gefur ekki kost á sér áfram. Fimm hafa lýst því yfir að þeir sækist eftir formannsstólnum. Fjórir hafa boðið sig fram til varaformennsku eða til ritarastarfs.

Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir að fulltrúatalan á þinginu miðist við fjölda flokksmanna.  „Frá síðasta flokksþingi hefur fjölgað í flokknum," segir hann.

Frestur til að skila inn kjörbréfum rennur út nú á föstudag en fjöldinn frá flokksfélögum miðast við einn fyrir hverja fimmtán félagsmenn.

Sæunn vill áfram vera ritari

Þeir sem hafa tilkynnt skrifstofu Framsóknarflokksins um framboð sitt til formennsku eru: Höskulur Þórhallsson, Páll Magnússon, Jón Vigfús Guðjónsson og  Lúðvík Gissurarson. Þá hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýst yfir framboði í fjölmiðlum, en hann á eftir að staðfesta það við flokksskrifstofuna.

Þeir sem hafa tilkynnt um framboð sitt til varaformennsku eru: Birkir J. Jónsson og Siv Friðleifsdóttir.

Gunnar Bragi Sveinsson gefur einnig kost á sér í önnur embætti en formannsembættið og þá hefur Sæunn Stefánsdóttir lýst því yfri að hún gefi áfram kost á sér í ritarastarfið.

Auk kjörs forystu flokksins má búast við að Evrópumál verði fyrirferðarmikil á þinginu.

Nánar má finna upplýsingar um þingið hér.