Atvinnulausum fjölgaði um 34 þúsund á milli mánaða í ágúst innan evrusvæðisins. Þar er nú rétt tæplega 18,2 milljónir manna án atvinnu og hafa aðrar eins tölur aldrei áður sést innan myntsvæðisins. Hlutfall atvinnulausra á evrusvæðinu stendur engu að síður í stað á milli mánaða í 11,4%, samkvæmt tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins birti í dag.

Á sama tíma er 10,5% atvinnuleysi að meðaltali innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Það er óbreytt staða á milli mánaða. Til samanburðar mældist 4,8% atvinnuleysi hér á landi í ágúst.

Sem fyrr er talsverður munur á atvinnuleysi eftir löndum. Mest er það á Spáni, 25,1% en minnst í Austurríki þar sem það mældist 4,5% í mánuðinum.

Samkvæmt umfjöllun netútgáfu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal eru atvinnuleysistölurnar staðfesting á neikvæðum áhrifum skuldakreppunnar á evrusvæðinu á íbúa innan aðildarríkja myntbandalagsins. Blaðið segir vísbendingar um að langur tími muni líða þar til dregur úr kreppunni og megi búast við að atvinnulausum muni fjölga frekar á næstu mánuðum þar sem fyrirtæki séu að draga úr kostnaði sökum óvissu í efnahagsmálum.