Rúmlega 700 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað til lands frá síðustu áramótum og til loka ágúst. Þetta er meiri fjöldi en kom hingað til lands allt árið 2012, samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í ágústmánuði einum komu hingað til lands 153.400 erlendir ferðamenn sem var 16,4% fjölgun frá í ágúst í fyrra. Erlendir ferðamenn hafa aldrei verið jafn margir í einum mánuði.

Bandaríkjamenn voru líkt og undanfarna mánuði fjölmennastir erlendra ferðamanna eða 14,7% af heildarfjölda ferðamanna í ágúst. Fast á hæla þeirra fylgja Þjóðverjar með 12,6% af heild. Þar á eftir komu Frakkar (9,8%), Bretar (7,3%), Ítalir (5,1%) og Spánverjar 4,7%. Samtals voru 10 fjölmennustu þjóðernin með 69% af heildarfjölda ferðamanna.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Frökkum, Kanamönnum, Kínverjum, Ítölum og Spánverjum mest. Þessar sex þjóðir voru með um helming af fjölgun ferðamanna í ágúst, samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu.