WOW air flutti 214 þúsund farþega til og frá landinu í desember eða um 23% fleiri farþega en í desember árið 2016. Sætanýting WOW air í desember var 88% en sætanýting í fyrra á sama tímabili var 86%. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 21% í desember frá því á sama tíma í fyrra.

Árið 2017 flutti WOW air rúmlega 2,8 milljónir farþega en það er 69% fjölgun farþega frá árinu áður. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá flutti Icelandair, hitt stóra íslenska flugfélagið um 4 milljónir farþega á síðasta ári. Sætanýting WOW air árið 2017 var 88% sem er sú sama og árið 2016. Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 80% milli ára.

Flugfloti WOW air verður 24 þotur í lok árs en félagið mun taka á móti sjö glænýjum þotum á árinu, þar af þremur innan örfárra mánaða segir í fréttatilkynningu félagsins. Tvær Airbus A321ceo, ein Airbus A321neo og fjórar breiðþotur Airbus A330-300neo en WOW air verður annað flugfélagið í heiminum til að taka á móti slíkum breiðþotum.

Þessar þotur eru næsta kynslóð Airbus A330 breiðþotna og eru þær sparneytnari en sambærirlegar breiðþotur annarra framleiðenda þökk sé meðal annars nýjum vængbúnaði sem hámarkar loftstreymisnýtni. Þessar sjö vélar eru allar glænýjar, árgerð 2018 og koma beint frá verksmiðjum Airbus í Evrópu.

Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air segir að árið 2017 hjá hafi einkennst af gríðarlegum vexti og fjárfestingum á öllum sviðum. „Ég vil nota tækifærið og þakka okkar frábæra starfsfólki fyrir að standast það mikla álag sem fylgir því að vaxa 69% á milli ára,“ segir Skúli.

„Desember var sérstaklega góður og WOW air hefur aldrei verið betur í stakk búið til að ráða við áframhaldandi vöxt en við áætlum að um 3,7 milljónir farþega muni ferðast með okkur árið 2018.

Einnig er ég mjög spenntur fyrir þeim nýjungum sem við erum að kynna á árinu; bæði nýjum áfangastöðum og ekki síst þjónustu til að gera WOW ferðalagið enn ánægjulegra fyrir okkar gesti.“

Á árinu mun WOW air bæta við sig áætlunarflugi til Detroit, Cleveland, Cincinnati, St.Louis og Dallas. Félagið mun þá fljúga til 15 áfangastaða í Norður-Ameríku.