Um  144.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 21.000 fleiri en í júlí í fyrra. Aukningin nemur 17% milli ára. Vart þarf að taka fram að aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér í júlí og nú og raunar aldrei fleiri í einum mánuði.

Bandaríkjamenn fjölmennir

Bandaríkjamenn voru líkt og í júní  fjölmennastir eða 15,9% af heildarfjölda ferðamanna í júlí en næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 12,5% af heild. Skáru þessar tvær þjóðir sig nokkuð úr en næst komu Bretar (8,7%), Frakkar (7,4%), Danir (5,9%), Norðmenn (4,6%) og Svíar (4,4%). Samtals voru 10 fjölmennustu þjóðernin með 70% af heildarfjölda ferðamanna.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Bretum, Kanamönnum, Kínverjum og Svíum mest á milli ára. Þessar sex þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í júlí eða um 70% af heildaraukningu.

Tvívegis áður meiri fjölgun í júlí

Ferðamenn voru ríflega þrisvar sinnum fleiri í júlí í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002. Fjölgun hefur verið öll ár á þessu tímabili og tvívegis hefur þeim fjölgað meira á milli ára en nú, þ.e.  í júlí 2007 og 2011.

Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá að frá árinu 2010 er góð fjölgun frá öllum svæðum.  Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mest en þeir hafa nærri þrefaldast. Bretar og þeir sem taldir eru sameiginlega undir „Annað“ hafa u.þ.b. tvöfaldast. Nokkru minni fjölgun er frá Mið- og Suður Evrópu en þó 50%. Norðurlandabúum hefur fjölgað 30% frá árinu 2010.