1.400 umsóknir bárust um starf flugfreyja og flugþjóna eftir að Icelandair auglýsti störfin í lok nóvember. Um 60 verða ráðnir og munu því um 700 flugfreyjur og flugþjónar starfa hjá flugfélaginu. Annar eins fjöldi hefur aldrei sést í sögu flugfélagsins.

Morgunblaðið hefur eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, í dag, að um 300 manns hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið í auglýsingunni. Þar á meðal verði umsækjendur að vera á aldrinum 21 til 35 ára. Guðjón segir marga umsækjendur með háskólagráðu.

Um 1.100 umsækjenda þreyta fyrsta prófið í ráðningarferlinu í Háskólabíói í næstu viku. Guðjón býst við að umsækjendurnir muni nýta alla sali bíósins. Á meðal þess sem verður prófað er tungumálakunnátta. Eftir prófraunina munu þeir 60 sem ráðnir verða fara á námskeið í átta vikur næsta vor.