Alls fóru 111.489 flugvélar um íslenska flugstjórnarsvæðið á nýliðnu ári, að ótöldu innanlandsflugi, og er það 9% aukning miðað við árið 2010. Árið 2008 trónaði áður á toppnum en þá fóru 110.366 flugvélar um svæðið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.

„Íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt stærsta flugstjórnarsvæði í heimi og liggur í geira norðan frá Norðurpól, vestan við Grænland, austur undir Noreg og suður á 61. gráðu norðlægrar breiddar, alls 5,4 milljón ferkílómetrar. Flugumferðarstjórn og flugfjarskipti fara fram í flugumstjórnarmiðstöð og flugfjarskiptamiðstöð Isavia í Reykjavík og starfa alls um 150 manns við þessa þjónustu. Árlegur kostnaður er um 3,2 milljarðar króna sem greiðist af notendum samkvæmt samningi Alþjóðaflugmálstjórnarinnar við Isavia," segir í tilkynningunni.

Þá segir að spár fyrir árið 2011 höfðu bent til 4% umferðaraukningar miðað við fyrra ár en segja megi að nánast hver mánuður hafi komið á óvart. Fimm daga eldgos í Grímsvötnum í maí olli talsverðum afturkipp en það hafði þó ekki áhrif á að heildarumferð ársins yrði hærri en nokkru sinni fyrr.

Isavia áætlar að 4% umferðaraukning verði í íslenska flugstjórnarsvæðinu árið 2012.