Alls fluttu 3.600 einstaklingar hingað til lands umfram þá sem fluttust frá landinu á öðrum ársfjórðungi. Af þeim voru 3.510 erlendir ríkisborgarar. Í hagsjá Landsbankans er bent á að aldrei hafi fleiri flutt til landsins á einum ársfjórðungi frá því Hagstofa Íslands byrjaði að birta þær tölur árið 2009.

Álíka tölur hafi síðast sést á öðrum ársfjórðungi 2017 þegar ferðaþjónustan var upp á sitt allra sterkasta.

„Hagvöxtur og aukin umsvif eru umfram náttúrulega fjölgun innlends vinnuafls, sem hefur í för með sér aukna þörf á innfluttu vinnuafli. Íslendingum fjölgar ekki nógu hratt til þess að geta fyllt upp í þörfina sem ný störf skapa og þannig þurfa fleiri erlendir starfsmenn að flytja til landsins til að manna þau nýju störf sem verða til. Erlent vinnuafl verður því sífellt mikilvægara,“ segir í hagsjánni.

Bent er á að undanfarið hafi 80%-90% af erlendum ríkisborgurum sem flytjast til landsins verið á bilinu 20-59 ára.

Flestir erlendir ríkisborgarar sem fluttu hingað til lands á öðrum fjórðungi komu frá Póllandi en þaðan komu 1.170 af alls 4.520 erlendum ríkisborgurum. Á eftir Póllandi komu næstflestir frá Úkraínu en þaðan komu 980 einstaklingar til landsins.

Í lok júní síðastliðnum voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi tæplega 60 þúsund talsins eða um 15,6% af heildarmannfjöldanum. Frá ársbyrjun 2010 hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 8,6% á meðan erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um rúm 175%.