Gistinætur á skráðum gististöðum voru um 1.472.200 í síðasta mánuði og hafa þær aldrei verið fleiri í ágúst, að því er kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 70% frá fyrra ári og vógu 81% af heildar gistinóttum í ágúst. Gistinóttum Íslendinga fækkaði um 16% á milli ára.

Gistinætur á hótelum í ágúst voru 597.800 og jókst hótelgisting í öllum landshlutum samanborið við ágúst 2021. Framboð hótelherbergja í ágúst jókst um 14% frá sama tímabili í fyrra. Herbergjanýting á hótelum var 88,6% og jókst um 13,1 prósentustig frá fyrra ári.

Á tólf mánaða tímabili, frá september 2021 til ágúst 2022, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.244.800 sem er tæplega þrefalt meira en á sama tímabili árið áður.