Aldrei hafa verið fleiri einstaklingar verið í alvarlegum vanskilum og nú en þeir eru nú 27.612 talsins samkvæmt gögnum Creditinfo og hefur fjölgað um 189 á einum mánuði. Má segja að fjölgunin hafi verið nokkuð stöðug frá hruni en í október 2008 voru 16.859 manns í alvarlegum vanskilum og hefur því fjölgað um tæplega 11.000 manns síðan þá. Vanskilin eru mest hjá fólki á aldursbilinu 30-59 ára. Karlar í vanskilum eru mun fleiri en konur, eða 11,3% af heildarfjölda karla 18 ára og eldri en 6,5% kvenna .

Einstæðir foreldrar virðast eiga í mestum erfiðleikum þar sem 17,9% einstæðra feðra eru í alvarlegum vanskilum og 17,4% einstæðra mæðra. Barnlausar einhleypar konur eru hins vegar best settar ef tekið er mið af fjölskylduformi en 5% þeirra eru í alvarlegum vanskilum en 13,8% einhleypra karla eru í sömu stöðu.

Barnlaus hjón eða sambúðarfólk eru síður í vanskilum en hjón eða sambúðarfólk með börn á forræði sínu. Mest eru vanskilin á Reykjanesi, eða 17%. Þau eru 10,7% á Suðurlandi, 9,7% á höfuðborgarsvæðinu og 9% á Vesturlandi en minnst á Norðurlandi vestra eða 6,4%, á Norðurlandi eystra 6,5% og á Austurlandi 6,6%.

Í tilkynningu er haft eftir Hákoni Stefánssyni, framkvæmdastjóra Creditinfo að samkvæmt gögnum fyrirtækisins hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá 65% einstaklinga í alvarlegum vanskilum. Við slíkar aðstæður séu vanskilin orðin mjög alvarleg og erfið úrlausnar fyrir þá sem eiga hlut að máli.