Jólatónleikar virðast verða meira áberandi á aðventunni með hverju árinu sem líður. Á annan tug mismunandi jólatónleika verða haldnir í tónlistarhúsinu Hörpu í desember, minnst fimm tónlistarmenn halda jólatónleika í Salnum í Kópavogi og að minnsta kosti þrennir tónleikar verða í Hofi á Akureyri.

Minni tónleikastaðir og kirkjur eru líka vinsælir staðir fyrir jólatónleika, auk þess sem tveir af stærstu og rótgrónustu viðburðunum fyrir jólin, Jólagestir Björgvins Halldórssonar og jólatónleikar Baggalúts, fara fram annars vegar í Laugardalshöll og hins vegar í Háskólabíói. Það er því af nógu að taka.

Edda H. Austmann Harðardóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Hörpu, segir aðventuna einstaklega viðburðaríka í Hörpu þetta árið. „Jóladagskrá í Hörpu hefur aldrei verið eins fjölbreytt og barnamiðuð. Á aðventunni og í aðdraganda hennar verða stórtónleikar næstum daglega,“ segir hún.

„Margir okkar ástsælustu tónlistarmenn sjá um að þjóðin komist í sannkallað jólaskap,“ segir Edda, og bætir því við að alþjóðlegir listamenn frá St. Pétursborg og London muni líka heimsækja Eldborg, stærsta salinn í Hörpu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .