Viðskiptatímaritið Forbes hefur allt frá árinu 1987 gefið út árlegan lista yfir milljarðamæringa í dölum talið á heimsvísu í kringum mánaðamótin mars-apríl. Listinn fyrir árið 2021 er nýkominn út og má segja að þróun listans sé athyglisverð, svona í ljósi þess að heimshagkerfið glímir nú við djúpa efnahagskreppu vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Þrátt fyrir það hafa aldrei fleiri milljarðamæringar komist á listann en á honum má finna 2.755 milljarðamæringa. Hafa 660 milljarðamæringar bæst við listann frá því í fyrra. Af þessum 660 nýju meðlimum listans eru 493 í fyrsta sinn á listanum. 86% milljarðamæringanna eru ríkari en fyrir ári síðan. Samanlögð auðæfi milljarðamæringanna nema um 13 þúsund milljörðum dala, en í fyrra námu samanlögð auðæfi 8 þúsund milljörðum dala.

Fjórða árið í röð situr Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, á toppi listans. Eru auðæfi hans metin á hvorki meira né minna en 177 milljarða dala. Teslu forstjórinn skrautlegi, Elon Musk, er svo í öðru sæti en auðæfi hans eru metin á 151 milljarð dala. Fleiri þekkt nöfn líkt og Bill Gates, Mark Zuckerberg og Warren Buffett eru á meðal þeirra tíu ríkustu í heimi.

Þó nokkrar tengingar við Ísland má finna á milljarðamæringalista Forbes. Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið fulltrúi Íslands á listanum um árabil og venju samkvæmt má finna nafn hans á lista Forbes. Nú hafa Íslendingar hins vegar eignast annan fulltrúa á milljarðamæringalistanum en Davíð Helgason, einn stofnenda Unity, er einn af þessum 493 sem komast inn á listann í fyrsta sinn. Hér á eftir verður kafað ofan í stöðu þeirra félaga á listanum, ásamt því sem nokkrir Íslandsvinir sem eru á listanum verða kynntir til leiks.

Björgólfur sígur neðar á listann

Björgólfur Thor Björgólfsson situr í þetta skiptið í sæti 1.444 á listanum og eru auðæfi hans metin á 2,2 milljarða dali, eða sem nemur um 279 milljörðum króna. Á listanum fyrir ári síðan voru eignir hans metnar á 2 milljarða dala og hafa auðæfi hans því aukist um 10% milli ára. Á síðasta ári sat Björgólfur í sæti 1.063 og hefur hann því sigið niður um 381 sæti þó að eignir hans séu metnar meiri í ár en þá. Það verður þó að taka með inn í myndina að líkt og fyrr segir bættist mikill fjöldi nýrra milljarðamæringa við listann, auk þess sem hagur mikils meirihluta milljarðamæringanna vænkaðist á milli ára. Fyrir hrun var Björgólfur mest metinn á 3,5 milljarða dala en eftir hrun datt hann út af listanum. Hann átti endurkomu á listann árið 2015 og hefur átt fast sæti á honum allar götur síðan.

Nýr íslenskur milljarðamæringur

Davíð Helgason er líkt og fyrr segir einn af nýliðum listans. Forbes metur verðmæti eigna hans á 1 milljarð dala og situr hann í 2.674. sæti listans. Viðskiptablaðið hefur á undanförnum mánuðum fjallað um ævintýralegan uppgang Davíðs og félagsins sem hann stofnaði í kjallara í Kaupmannahöfn ásamt tveimur félögum sínum árið 2004. Unity var skráð í Kauphöll í New York í september í fyrra og fór gengi hlutabréfa félagsins með himinskautum eftir skráninguna, en hefur þó aðeins gefið eftir undanfarnar vikur. Davíð á 4% hlut í Unity en auk þess er hann nokkuð umsvifamikill sprotafjárfestir.

Stórtækur jarðaeigandi

Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe ætti að vera orðinn landsmönnum kunnugur enda hefur hann verið stórtækur í jarðakaupum á Norðausturlandi og hefur hann þá helst litið til jarða sem eiga bakkametra að gjöfulum veiðiám. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve margar jarðir hann á á svæðinu en áætlað hefur verið að hann eigi um tvo tugi, ýmist að hluta eða í heild. Hann stofnaði félagið Ineos árið 1998 en í dag eru undir því yfir tuttugu félög og nam heildarvelta samstæðunnar 85 milljörðum dala árið 2019. Ratcliffe situr í 113. sæti milljarðamæringalistans og eru eignir hans metnar á 17 milljarða dala.

Jim Ratcliffe - Nice
Jim Ratcliffe - Nice
© epa (epa)

Fyrirsæta í laxeldi

Arnarlax, stærsta laxeldisfélag landsins, er að meirihluta í eigu norska laxeldisrisans SalMar, stærsta laxeldisfélags heims. SalMar var stofnað árið 1991 af Gustav Witzøe sem stýrir félaginu enn þann dag í dag. Hann gaf syni sínum, Gustav Magnar Witzøe, 47% eignarhlut í félaginu. Gustav, sem er 27 ára, er einn yngsti milljarðamæringur heims samkvæmt Forbes. Hann hefur einnig reynt fyrir sér sem fyrirsæta og er hann á samning hjá umboðsskrifstofunni Next Models. Gustav situr í 655. sæti listans og eru auðæfi hans metin á 4,4 milljarða dala.

Tóbakserfingjar

Systurnar Alexandra og Katharina Andresen eru, líkt og landi þeirra Gustav Magnar, á meðal yngstu milljarðamæringa heims. Árið 2007 fengu þær hvor um sig 42% eignarhlut í fjárfestingafélagi fjölskyldunnar, Ferd AS, frá föður þeirra, Johan H. Andresen. Auður fjölskyldunnar byggir ekki síst á tóbaksframleiðandanum Tiedemanns Tobakksfabrikk sem komst í eigu fjölskyldunnar árið 1849. Fyrirtækið var með yfirburðastöðu á norskum tóbaksmarkaði. Fjölskyldan seldi stærstan hlut sinn í fyrirtækinu árið 1998 og að fullu árið 2005. Samanlagður auður þeirra er metinn á 1,4 milljarða dala og sitja þær fyrir vikið í 2.141. sæti listans. Ferd er meðal annars stærsti hluthafi í Benchmark Holdings, sem á laxa- og hrognkelsaseiðframleiðandann Stofnfisk hér á landi.