Uber Technologies, móðurfélag leigubílaþjónustunnar Uber, hagnaðist um 595 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, að því er kemur fram í uppgjöri félagsins. Hagnaðurinn skýrist einna helst af 756 milljón dala óinnleystum gengishagnaði af hlutabréfaeignum félagsins.

Tekjur Uber jukust um tæp 50% milli ára og námu 8,6 milljörðum dala á fjórðungnum. Í tilkynningu frá félaginu segir forstjóri Uber að virkir leigubílstjórar Uber hafi aldrei verið fleiri en á fjórða ársfjórðungi.

Uber var með 131 milljón virka notendur á fjórðungnum, sem er met hjá félaginu. Þá voru bókaðar 2,1 milljarðar bílferða með Uber á tímabilinu.

Félagið áætlar að bókunum muni fjölga um meira en 20% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þá gerir félagið ráð fyrir 700 milljóna dala rekstrarhagnaði á fjórðungnum.