*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 19. nóvember 2013 20:01

Aldrei fleiri pantanir hjá Dominos

Á meðan íslenska landsliðið í fótbolta keppir við það króatíska borða margir pizzu. Alla vega Dominospizzu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Domino‘s hefur aldrei fengið jafn margar pantanir og í kvöld. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dominos.

Þar segir einnig að pantanafjöldinn síðustu þrjá klukkutímana sé án fordæma í sögu Domino‘s á Íslandi. Tugþúsundir hafa reynt að panta pítsur hjá fyrirtækinu á sama tíma. Heimasíðan er undir miklu álagi, sem og pantana-app fyrirtækisins og þjónustuver. 160 símalínur eru í þjónustuveri fyrirtækisins og hafa þær allar verið uppteknar síðasta klukkutímann. Ekkert kvöld er sambærilegt, hvorki Eurovision né fyrri íþróttaleikir hafa leitt til jafn mikils álags.

„Domino‘s vill koma því á framfæri að fyrirtækið hafði undirbúið sig vel fyrir þennan dag en fjöldinn er samt töluvert meiri en búist hafði verið. Starfsfólk Domino‘s vill alls ekki gera neitt til að skemma þetta sögulega kvöld fyrir viðskiptavinum en mjög vandasamt er að afgreiða þetta mikla magn pantana á svo skömmum tíma. Biðtímar eru því mun lengri í kvöld en annars er vaninn hjá fyrirtækinu og er lengsta biðin nú 120 mín í sumum hverfum. Þess má geta að afkastageta á hvern útsölustað er meiri hér á landi en í öðrum löndum," segir í tilkynningunni hjá Dominos.

Stikkorð: Dominos Landsleikur