Um átta þúsund erlendir ferðamenn munu koma til Reykjavíkur með fjórum skemmtiferðaskipum nk. mánudag 18. júní. í tilkynningu frá TVG-Zimsen, sem þjónustar þrjú af skipunum fjórum, er haft eftir Birni Einarssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að aldrei hafi jafn margir farþegar úr skemmtiferðaskipum komið sama daginn til Reykjavíkur.

Skipin þrjú, sem TVG-Zimsen þjónustar, heita Artania, Costa Pacifica og Clipper Adventurer og koma öll á mánudagsmorgun. Auk þeirra kemur Aidamar til höfuðborgarinnar eftir hádegi á mánudag. Búist er við nærri 130 viðkomum hjá skemmtiferðaskipum á vegum TVG-Zimsen á öllu landinu í sumar. Þetta er töluverð aukning frá síðasta ári eða um 30%.