Umsóknir um aðild að Búseta hafa aldrei verið fleiri en í fyrra þegar 517 manns gengu í félagið, tæplega 100 fleiri en tveimur árum áður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Fasteignaverð hefur farið hratt hækkandi undanfarin misseri og hefur sú þróun gert fólki sífellt erfiðara fyrir að kaupa sér húsnæði. Kann það að skýra aukna ásókn í íbúðir Búseta en kaup á búseturétti krefst yfirleitt minna eiginfjárframlags en kaup á íbúð. Eftir að gengið hefur verið frá kaupunum á búseturétti er greitt mánaðargjald sem byggir á kostnaði og er yfirleitt talsvert lægra en almennt leiguverð,“ segir í tilkynningu.

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, telur fjölgunina eiga sér tvær skýringar. „Annars vegar er stór hópur fólks sem fær ekki fjármögnun á þá íbúðarstærð sem það vantar og hins vegar fólk sem þekkir einhvern í Búseta og er hrifið af sveigjanleikanum sem þetta form veitir.“

Búseti á um 750 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og er búist við að þeim fjölgi um 500 á næstu árum.