*

föstudagur, 27. nóvember 2020
Innlent 30. apríl 2015 17:06

Aldrei fleiri þátttakendur í WOW Cyclothon

Í ár munu um 1000 manns taka þátt í WOW Cyclothon hjólreiðakeppninni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin verður haldin í fjórða sinn dagana 23.-26. júní.  Hjólað verður með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, um Hvalfjörð og yfir Öxi á innan við 72 tímum.  Þetta er fjórða árið í röð sem WOW Cyclothon keppnin er haldin en í ár munu um 1000 manns taka þátt í keppninni. Fram kemur í fréttatilkynningu að þetta er næstum því tvöföldun frá því í fyrra en þá tóku 520 manns þátt. Mikil aukning hefur átt sér stað á milli ára en fyrsta árið 2012 tóku 78 manns þátt og annað árið, 2013 tóku um 200 manns þátt.

Markmiðið er ekki eingöngu að hjóla til sigurs heldur einnig að styðja gott málefni en málefnið í ár verður tilkynnt með formlegum hætti í næstu viku.

Skráningu í keppnina lýkur á miðnætti á morgun, 1. maí en nú þegar hafa, eins og fyrr segir, um 1000 keppendur skráð sig til leiks. Í A-flokki hafa skráð sig 12 fjögurra manna lið sem munu keppa sín á milli um hvaða lið kemst fyrst í mark. Í B-flokki hafa skráð sig 80 tíu manna lið sem vinna saman að því að komast í mark innan tímamarka en ótrúleg fjölgun á liðum hefur orðið í þessum flokki frá því fyrra.  Þessi flokkur er kjörinn fyrir hópefli og hafa mörg af stærstu fyrirtækjum landsins skráð lið til leiks.

Jafnframt verður keppt í einstaklingsflokki þar sem einn hjólreiðamaður hjólar allan hringinn einn síns liðs og hefur til þess 84 klukkustundir. Þrír ofurhugar kláruðu þessa þrekraun í fyrra, en nú eru 7 einstaklingar skráðir í þennan flokk.

Sigurvegarar áheitasöfnunarinnar í fyrra var liðið Hjólakraftur sem var skipað tíu meðlimum. Liðið var sett á laggirnar fyrir börn og unglinga sem hafa háð baráttu við lífstílssjúkdóma. Upprunalega hugmyndin var og er að kynna hjólaíþróttina fyrir þeim en þau höfðu ekki fundið sig í öðrum íþróttum. Þorvaldur Daníelsson var upphafsmaðurinn og mun nú koma enn sterkari til leiks með nýjung í WOW Cyclothon en nýr flokkur hefur verið settur á laggirnar – Hjólakraftsflokkurinn. Í honum munu keppa allt að tíu lið í samstarfi við Hjólakraftsklúbba víðsvegar um landið.

Stikkorð: Wow Air WOW Cyclothon