Aldrei er hægt að ná fullkomninni sátt um rammaáætlun, segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur sem var formaður fyrsta faghópsins sem mat verðmæti svæðanna í Þjórsárverum og í kringum Þjórsá og síðan áhrif einstakra virkjana á náttúru og menningaminjar. Hún segir í samtali við Fréttablaðið að með rammaáætluninni hafi náðst málamiðlun þar sem verið var að móta stefnu til langrar framtíðar og vegnir saman mismunandi kostir í landnýtingu. Í Fréttablaðinu er fjallað um þá ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra að færa mörk friðlandsins í kringum lón Norðlingaölduveitu og vitnað til orða hans þessa efnis að verið sé að rugla saman verndun Þjórsárvera og einhverjum hugsanlegum virkjanakostum neðar í Þjórsá í framtíðinni.

Þóra segir að þótt einhver breytt útfærsla á virkjanahugmynd á þessu svæði komi fram þá skipti það engu máli fyrir þá ráðstöfun sem áður hefur verið gerð með því að setja svæðið í verndarflokk.

„Þar eru það náttúruverndarverðmætin en ekki orkuverðmætin sem eru grundvöllur þess að svæðið er sett í verndarflokk," segir hún.