Hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði hefur aldrei verið hærra en á þriðja ársfjórðungi núna í ár, en tölurnar ná aftur til ársins 2008. Þetta má lesa úr nýjum tölu frá Þjóðskrá.

Samtals voru 1.949 kaupsamningum á fasteignum þinglýst á fjórðungnum miðað við 2.066 samninga á sama fjórðungi í fyrra. Þar af voru 549 samningar vegna fyrstu kaupa einstaklinga eða 28% af heildinni samanborið við 26% samninga á þriðja fjórðungi 2018 sem voru 545 talsins.

Fyrstu níu mánuði ársins hefur samtals 5.436 kaupsamningum verið þinglýst á höfuðborgarsvæðinu sem er 648 samningum færra en á sama tímabili 2018 þegar þeir voru 6.084 talsins sem jafngildir rúmlega 10% samdrætti milli ára. Hlutfall fyrstu kaupenda það sem af er ári 2019 er 27,2% eða samtals 1.477 samningar samanborið við 25,9% á sama tímabili á síðasta ári þegar 1.578 samningar voru vegna fyrstu kaupa.

Samtals hefur 8.228 kaupsamningum verið þinglýst á landinu öllu fyrstu níu mánuði í ár miðað við 9.238 samninga á sama tímabili í fyrra sem jafngildir 11% samdrætti milli ára.

Hlutfall fyrstu kaupenda er sömuleiðis hátt í sögulegu ljósi víðasta hvar á landinu að Vesturlandi undanskildu þar sem hlutfallið var 20% en hefur að meðaltali verið 23% frá árinu 2014.