Upplýsingar um fjölda gjaldþrota á síðasta ári benda til að atvinnulífið er enn laskað eftir efnahagshrunið, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Á fyrstu ellefu mánuðum nýliðins árs urðu 1.426 fyrirtæki gjaldþrota samanborið við 982 fyrirtæki sem lögðu upp laupana árið 2010.

Greiningardeild Íslandsbanka bendir á það í nýjasta Morgunkorni sínu í dag að gjaldþrot hafi aldrei verið fleiri. Því til samanburðar urðu að meðaltali 430 fyrirtæki gjaldþrota á ári á árabilinu 1990 til 1997.