Hagstofa Íslands hefur tekið saman yfirlit yfir fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem læra erlend tungumál skólaárið 2005-2006 í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að enska sé það mál sem flestir grunnskólanemendur læra.

Enskunemum hefur fjölgað ár frá ári og stunduðu 28.782 grunnskólabörn enskunám skólaárið 2005-2006. Aldrei áður hafa fleiri grunnskólabörn verið að læra ensku. Dönskunemum hefur einnig fjölgað en nú læra 18.237 nemendur grunnskólans dönsku. Alls völdu 226 nemendur sænsku og 127 nemendur norsku í stað dönsku.

Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á um í aðalnámsskrá. Fleiri 6 ára nemendur læra nú ensku en nokkru sinni fyrr. Skólaárið 2005-2006 lærðu 1.111 nemendur í 1.-3. bekk ensku í grunnskólum landsins sem er rúmlega tvöföldun frá fyrra skólaári.

Í mörgum grunnskólum landsins er nemendum boðið að læra þriðja erlenda tungumálið. Á undanförnum árum hafa flestir nemendur lagt stund á nám í þýsku og frönsku. Skólaárið 2005-2006 völdu flestir nemendur þýsku (588) en næstflestir spænsku (467). Þar á eftir völdu nemendur frönsku (260).

Skólaárið 2005-2006 lögðu 17.307 framhaldsskólanemar stund á nám í erlendu tungumáli eða 74,1% allra nemenda á þessu skólastigi. Árið á undan lærðu 73,7% nemenda á framhaldsskólastigi erlend tungumál.

Stúlkur eru að jafnaði fleiri í hópi tungumálanemenda. Skólaárið 2005-2006 lærðu 75,7% stúlkna á framhaldsskólastigi erlend tungumál en sambærileg tala meðal pilta var 72,5%.

Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku, eða 14.698 nemendur skólaárið 2005-2006. Danska kemur næst á eftir en 8.738 nemendur stunduðu dönskunám þetta sama ár. Þýska er þriðja algengasta erlenda tungumálið.Spænska kemur næst á eftir þýsku og eru nemendur í spænsku nú í fyrsta sinn fleiri en nemendur í frönsku. Spænskunni hefur því vaxið fiskur um hrygg með hverju ári enda þriðja útbreiddasta tungumál í heiminum á eftir kínversku og ensku.