*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 7. janúar 2019 12:43

Aldrei hagstæðari viðskiptajöfnuður

Íslandsbanki segir áratuginn skera sig úr með viðskiptaafgangi samhliða hagvexti. Halli reglan frá stríðslokum.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í turninum við Smáralindina í Kópavogi.
Haraldur Guðjónsson

Á sama tíma og hagvöxtur hér á landi hefur verið myndarlegur, hefur raungengið krónunnar farið hækkandi ásamt því að viðskiptajöfnuður hefur aldrei verið hagstæðari.

Segir greining Íslandsbanka þetta ástand síðustu árin skera sig algerlega frá hagsögu þjóðarinnar, þar sem viðskiptahalli hefur verið reglan frá stríðslokum, sérstaklega á vaxtarskeiðum. Það er 55 ár af síðustu 72 árum.

Af þeim 17 árum sem einhver afgangur hefur mælst af utanríkisviðskiptum eru 6 á yfirstandandi áratug. Auk þess sem hann hefur verið myndarlegri, undanfarin hálfan áratuginn en nokkru sinni fyrr, eða 5,7% af vergri landsframleiðslu.

Reglan hingað til hefur verið að á vaxtarskeiðum hefur fylgt talsverður viðskiptahalli vegna aukins innflutnings vegna erlendrar fjárfestingar en einnig vegna innfluttrar neyslu. Þó hvort tveggja hafi gerst síðustu ár hefur vöxtur útflutnings haldið viðskiptajöfnuðinum í horfinu.

Það sem hefur síðan algera sérstöðu í nútíma hagsögu Íslands er að viðskiptaafgangurinn hefur staðið af sér hækkun á raungenginu. Síðustu fimm til sex árin hefur landið orðið dýrara í samanburði við umheiminn, bæði verðlag og launakostnaður, en það hefur ekki haldist í hendur við vaxandi viðskiptahalla.

Áhrif framleiðniaukningar í útflutningsgreinum má þannig greina á síðustu árum í hækkun langtímaleitni raungengisins. Bankinn telur áfram útlit fyrir viðskiptaafgang, en þjóðhagsspá greiningar hans frá því í september gerir ráð fyrir 2,8% af VLF í afgang á árinu og 1,7% af VLF árið 2020.

Hefur þróunin síðan frekar styrkt starfsmenn greiningarinnar í þessari skoðun, því þó horfur séu á fremur hægum hagvexti í ár telur bankinn að vöxturinn taki við sér áður en langt um líður. Jafnframt telur bankinn að raungengið muni haldast tiltölulega hátt á næstu árum.

„Því bendir margt til þess að framundan sé hagfelldara samspil ytra jafnvægis og batnandi lífskjara hér á landi en Íslendingar hafa átt að venjast frá lýðveldisstofnun.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is