Ekki eru nema tæpir fjórir mánuðir síðan Einar Örn Ólafsson settist í forstjórastól hjá Skeljungi. Segja má að á flestum öðrum tímum hafi ráðning í þennan stól vakið meiri athygli en nú eru óvenjulegir tímar í íslenskum fyrirtækjarekstri og athyglin á flest annað en rekstur olíufélags.

Þó er hægt að segja að rekstur Skeljungs hafi sterka tengingu við annan fyrirtækjarekstur í landinu. Auk þess að standa að baki umfangsmikilli starfsemi er félagið með snertingu við flestar tegundir viðskiptavina á Íslandi eins og Einar bendir á. Það á við um bensínstöðvarnar sem almenningur sækir en þó ekki síður fyrirtækjamarkaðinn þar sem félagið tengist inn í rekstrarumhverfi fyrirtækja landsins sem er ekki alls staðar beysið núna. Þar er nóg að nefna sjávarútveginn, flugfélögin, verktaka og landbúnaðinn og yfirleitt alla þá sem nota eldsneyti í einhverjum mæli.

„Við erum með puttana á púlsinum og við sjáum vel hvernig gengur hjá okkar viðskiptavinum. Almennt má þó segja að eftirspurn eftir okkar vöru breytist frekar hægt. Velta Skeljungs hefur minnkað til þess að gera lítið þó að sala flugeldsneytis og til verktaka hafi vissulega minnkað. Hjá sjávarútveginum og almenningi er lítil breyting,“ segir Einar Örn í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við sjáum hins vegar ákveðna þróun á viðskiptakröfum. Verr gengur að fá borgað og undanfarið höfum við tapað meira af viðskiptakröfum en nokkurn tíma áður í sögu félagsins. Ég er því smeykur gagnvart komandi vetri, meðal annars vegna þes að margir hafa verið með frystingu lána og bankarnir hafa ekki verið mjög grimmir síðustu mánuðina á meðan sjokkið er að ganga yfir. Nú fer að greiðast úr þessu og bankarnir ákveða hverjir lifa og hverjir deyja. Þá er hætt við að við lendum í tjóni vegna þeirra kúnna sem lenda vitlausu megin. Við finnum þetta því mjög á okkar rekstri.“

Nánar er rætt við Einar Örn í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu.