Aldrei fyrr hefur jafn hátt hlutfall jólabóka verið prentað erlendis. Þetta kemur fram í könnun sem Bókasamband Íslands hefur gert á prentstað íslenskra bóka sem birtust í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2006. Greint er frá þessu á heimasíðu Samtaka iðnaðarins.

Heildarfjöldi bókatitla er 650 í bókatíðindunum í ár en var 608 árið 2005 og 651 árið 2004.

Könnunin sýnir að hlutfall prentunar innanlands dregst verulega saman frá fyrra ári. Aðeins 54,2% titla eru prentuð á Íslandi en það hlutfall var 59,7% í fyrra. Samkvæmt könnuninni, sem gerð hefur verið með samræmdum hætti frá árinu 1998, hefur hlutfall prentunar erlendis aldrei verið jafn hátt eða 45,8%.

Skoðað var hvert hlutfall prentunar innanlands og erlendis er eftir flokkum. Eftirfarandi niðurstöður eru úr þeim samanburði:

Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 201; 52 (25,9%) prentaðar á Íslandi og 149 (74,1%) prentaðar erlendis.
Skáldverk, íslensk og þýdd og ljóð, eru 164; 106 (64,6%) prentaðar á Íslandi og 58 (35,4%) prentaðar erlendis.
Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 171; 112 (65,5%) eru prentaðar á Íslandi og 59 (34,5%) prentaðar erlendis.


Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 114; 82 (72%) prentaðar á Íslandi og 32 (28%) prentaðar erlendis.