Um 110.600 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní síðastliðnum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það eru um 27.000 fleiri en í júní í fyrra og nemur aukningin um 23,1% milli ára. Aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér í júní, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir ferðamanna og Þjóðverjar næstfjölmennastir. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum, Kanadamönnum, Þjóðverjum og Kínverjum mest milli ára.

Frá áramótum hafa 401.772 ferðamenn farið frá landinu eða um 90 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 29% aukningu ferðamanna milli ára.

Þá fóru 41 þúsund Íslendingar utan í júní, um 4900 fleiri en í júní í fyrra. Frá áramótum hafa 184.820 Íslendingar farið utan, eða 8,5% fleiri en á sama tímabili árið 2013.