„Ég nýtti mér þessa reynslu til góðs. Það lenda allir í einhverju á lífsleiðinni og það að lenda í áfalli í viðskiptum er ekkert sambærilegt við aðrar hörmungar sem fólk lendir í,“ segir Bogi Þór Siguroddsson, eigandi Johan Rönning-samstæðunnar.

Bogi skrifaði í lok árs 2002 bókina Fjandsamleg yfirtaka en þar fjallaði hann um starfslok sín hjá Húsasmiðjunni og deiluna við Árna Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Þeir Árni og Hallbjörn höfðu fyrr á árinu keypt meirihluta hlutabréfa í fyrirtækinu (og seldu það síðar til Baugs). Hallbjörn og Árni eru sem kunnugt er stærstu eigendur Haga í dag.

Bogi réð Árna til sín sem fjármálastjóra eftir að sá fyrrnefndi tók við stöðu forstjóra í ársbyrjun 2000. Til að gera langa sögu stutta þá bauðst Boga að kaupa Húsasmiðjuna af þáverandi eigendum og samkvæmt því sem fram kemur í bókinni bauð hann Árna að koma í það verkefni með sér. Málið var í undirbúningi þegar Bogi fór í sumarfrí til Spánar. Hann var nýfarinn í frí þegar hann fékk símtal frá Árna sem sagði honum að hann hefði fest kaup á Húsasmiðjunni í félagi við Hallbjörn, sem þá starfaði fyrir Kaupþing.

Varð að koma málinu frá sér

Bogi fer yfir málið í Viðskiptablaðinu. Blaðamaður rifjar upp málið og vekur máls á því að það hafi lítið farið fyrir Boga Þór í almennri umræðu eftir þessi viðskipti. Það liggur því í hlutarins eðli að spyrja hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun.

„Ég varð að koma þessu máli frá mér og tók meðvitaða áhættu um þessi bókarskrif. Þar með lauk málinu af minni hálfu,“ segir Bogi. „En ég hugsaði á sama tíma að ef ég fengi tækifæri til að sanna mig á öðrum vígstöðum yrði ég að grípa það tækifæri og gera það vel. Þess vegna fannst mér mikilvægt að láta verkin tala og þar hefur fókusinn minn legið síðustu ár. Það skipti mig máli að fá að gera það sem ég hef ástríðu fyrir og ég er að því í dag,“ segir Bogi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .