„Þau fengu styrkinn í ágúst fyrir að verða einu og hálfu ári síðan og það er ennþá verið að vinna í myndinni eftir því sem við vitum best. Þannig að þetta er ekki komið alveg á einhvern skandalpunkt,“ segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, um kvikmyndina Sumarbörn.

Kvikmyndin átti upphaflega að vera tilbúin síðasliðið vor og síðan í haust, en tökum á myndinni lauk í október 2013. Í september síðastliðnum komst myndin í fréttir vegna þess að leikarar höfðu ekki fengið greitt eins og um hafði verið samið.

Laufey segir að sem betur fer þá hafi það aldrei gerst að stórar myndir sem fengið hafi styrki klárist ekki, og vonandi gerist það aldrei. Ef slíkt kæmi upp á sé sjóðnum hins vegar heimilt að krefjast endurgreiðslu á styrk allt umfram sannarlegan kostnað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .