Erlendur Magnússon, fyrrum stjórnarmaður Borgunar, furðar sig á viðskiptaháttum SaltPay, áður Borgunar, í færslu á Facebook. Erlendur bendir á að SaltPay hafi tilkynnt viðskiptavinum sínum í gær, með tveggja daga fyrirvara, að það muni ekki lengur bjóða upp á boðgreiðslur.

Félagið hyggst loka á þessa þjónustu frá og með morgundeginum. „Ég hef aldrei áður kynnst svona viðskiptasiðferði, að segja upp viðskiptum með tveggja daga fyrirvara,“ segir Erlendur í færslunni. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hljóti að skoða málið.

Í athugasemd segir Arnar Sigurðsson, eigandi netvínverslunarinnar Santewines, að fyrirtækið vilji ekki viðskiptavini. Í skjáskoti sem hann hengir við athugasemdina frá því í maí kemur fram að félagið taki ekki við nýjum viðskiptavinum að svo stöddu.

Óskar Veturliði Sigurðsson, sem er fyrrverandi stjórnarmaður í Borgunm er einnig gagnrýninn á framferði nýju eigenda félagsins.„Það er fátt sem kemur á óvart lengur með þessa eigendur. Og að bankinn skuli hafa valið þá þrátt fyrir aðvaranir er ótrúlegt," segir Óskar í athugasemd við færsluna en Íslandsbanki var meirihlutaeigandi Borgunar þegar félagið var selt til SaltPay á síðasta ári.

Boðgreiðslur eru notaðar til að innheimta reglulegar greiðslur eins og áskriftir og tryggingar. „Boðgreiðslur eru góð leið til að innheimta með rafrænum hætti mánaðarlegar greiðslur hvort sem upphæðin er sú sama eða breytileg milli mánaða," segir á vefsíðu SaltPay.