Úrslit í fyrsta Hnakkaþoninu sem haldið hefur verið liggja nú fyrir. Það var þverfaglegt teymi úr öllum akademískum deildum Háskólans í Reykjavík (HR), sem stóð uppi sem sigurvegari. Teymið skipuðu þau Egill Sigurðarson, Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Helgi Már Hrafnkelsson, Jóhanna Edwald og Rebekka Rut Gunnarsdóttir.

Hnakkaþonið er útflutningskeppni sjávarútvegsins á meðal nemenda HR. Keppnin, sem fór fram um helgina, snerist um það að nemendur höfðu sólarhring til að setja fram áætlun um það hvernig kom má ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni.

„Ég held að ég hafi aldrei lært jafn mikið á einum degi,“ segir Rebekka Rut um keppnina.

„Það var mat dómnefndar að vinningsliðið hefði sett fram heildræna lausn á meðal annars markaðsmálum, gæðamálum, flutningi vöru og flutningskostnaði," segir í tilkynningu frá HR. „Auk þess hefðu þau sett fram metnaðarfulla áætlun til næstu 10 ára um hvernig auka mætti sölu þorskhnakka í Bandaríkjunum.

Í verkefninu þurfti að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka."

Fimmmenningarnir, sem báru sigur úr býtum, munu í mars fara á stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku en hún er haldin í Boston. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.