Lögreglan og tollgæslan lögðu hald á næstum 63 kílógrömm af maríjúana á síðasta ári og er það meira magn en áður hefur þekkst á einu ári. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að í bráðabirgðatölum sem Ríkislögreglustjóri hefur tekið saman sjáist að það magn maríjúana sem lagt var hald á í fyrra sé þrefalt meira en á árunum 2012 og 2013, og tvöfalt meira en tveimur árum þar á undan. Virði þessa magns nemur meira en 200 milljónum króna. Einnig margfaldaðist sá fjöldi af LSD-skömmtum sem lagt var hald á, en samdráttur varð í flestum öðrum efnum.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir í samtali við Morgunblaðið að oft sé erfitt að draga ályktanir af tölum um fíkniefni sem hald hefur verið lagt á nema líta yfir langt tímabil og taka tillits til margs sem geti haft áhrif. Virðist honum þróunin vera sú sama og verið hefur eftir hrun.