Anna Svava Knútsdóttir stofnaði á dögunum matarpakkafyrirtækið Matseðil með eiginmanni sínum Gylfa Þór Valdimarssyni, Þorkeli Andréssyni matreiðslumanni og Karítas K. McCrann. Varan og þjónustan sem fyrirtækið selur er í ætt við það sem fá má hjá Eldum rétt, sem flestir þekkja.

Pantaður er pakki með hráefni og leiðbeiningum fyrir tvær til fjórar máltíðir fyrir tvo til fjóra einstaklinga, auk þess sem hægt er að velja af barnamatseðli. Maturinn er svo annaðhvort sóttur eða sendur heim, og eldaður eftir leiðbeiningum frá fyrirtækinu, sem bæði má nálgast á textaformi og sem myndband.

Komin lengra í eldunarstiginu en samkeppnisaðilarnir
Mikið er lagt upp úr því að matseldin sé sem allra fljótlegust og einföldust, og í því skyni eru hráefnin almennt komin lengra í eldunarstiginu en hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum, ef svo má að orði komast.

„Við erum búin að marinera kjötið, forsjóða kartöflurnar og þar fram eftir götunum. Þegar þú færð pakkann er svo QR-kóði utan á honum sem þú skannar með símanum og þá er myndbandið bara fyrir framan þig,“ segir Anna og leikur píphljóð skannans eftir. „Þú ert eiginlega aldrei lengur en 30 mínútur að elda.“

„Draumurinn okkar er að geta afhent alla daga vikunnar, en í dag er það bara á mánudögum. Þú gætir þá fengið afhent á föstudegi, sem dæmi og átt mat fyrir helgina,“ segir hún, en auk þess stefna þau að því að bjóða upp á enn meiri sveigjanleika hvað varðar fjölda, sem geti verið breytilegur milli daga innan sömu sendingar og náð tveggja stafa tölu fyrir einstaka daga.

Fyrir þá sem vilja hafa hlutina í föstum skorðum á þó matur sem afhentur er á mánudegi að geymast út vikuna, og því líka hægt að fá alltaf afhent á sama degi, og raða því svo eftir eigin höfði hvaða daga maturinn er borðaður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .