Dagskrá Menningarnætur er formlega hafin og mun henni ljúka með flugeldasýningu við Reykjavíkurhöfn kl. 23:00. Aldrei hefur verið lokað jafn mikið fyrir bílaumferð í miðborginni og nú en í samtali við Mbl.is segir Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, að lokanirnar eigi að tryggja öryggi bæði gangandi og akandi vegfarenda á meðan hátíðinni stendur. Búist er við í kringum 100.000 manns á Menningarnótt en í kringum 400 viðburðir eru á dagskrá þetta árið.

Viðbúnaðurinn er sérstaklega mikill í ár vegna slæmrar reynslu frá árinu áður samkvæmt Einari. Þá voru dæmi um að ökumenn virtu ekki lokanir og stofnuðu fólki í hættu. Þá hvetur hann gesti Menningarnætur til að taka strætó á hátíðina en ókeypis er í strætisvagna auk þess sem að sérstakt leiðarkerfi verður gangsett eftir kl. 23:00 í kvöld.