Heildarmagn makríls á Íslandsmiðum er nú meira en nokkru sinni frá því að athuganir hófust árið 2009, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að rúmlega fimm vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar, sem hafði það markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Ísland og við Grænland, lauk í gær.

Alls voru teknar 92 fyrirfram ákveðnar rannsóknastöðvar þar sem tekin voru stöðluð tog í efstu lögum sjávar með flottrolli til að meta magn makríls, en jafnframt voru framkvæmdar mælingar á umhverfisþáttum ásamt söfnun átusýna í háfa. Milli rannsóknastöðva var bergmálsgögnum safnað.

Bráðbirgðaniðurstöður sýna mun meira magn og suðlægari útbreiðslu makríls sunnan við Ísland en undanfarin ár. Þá var makríll fyrir öllu Vestur- og Austurlandi í svipuðu magni og fyrri ár, en lítils var vart norður af landinu.

Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum frá leiðangrinum og munu helstu niðurstöður hans verða kynntar seinna í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum komu.