Atvinnuleysi á evrusvæðinu jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða í nóvember, samkvæmt upplýsingum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti í morgun. Atvinnuleysið mælist nú 11,8% og hefur það aldrei verið meira á evrusvæðinu. Þetta jafngildir því að rétt rúmlega 18,8 milljónir manna séu þar án atvinnu. Til samanburðar mældist 10,7% atvinnuleysi innan Evrópusambandsríkjanna og var það óbreytt á milli mánaða.

Staðan er talsvert misjöfn frá einu evruríki til annars. Þannig er aðeins 4,5% atvinnuleysi í Austurríki, 5,1% atvinnuleysi í Lúxemborg og 5,4% atvinnuleysi í Þýskalandi, sem jafnframt er stærsta evruríkið. Verst er staðan hjá skuldsettustu ríkjunum. Atvinnuleysið er mest á Spáni þar sem 26,6% vinnubærra manna mæla göturnar. Á Grikklandi er svo 26% atvinnuleysi. Í þessum löndum er jafnframt hátt hlutfall ungs fólks án atvinnu. Á Grikklandi er 57,6% ungs fólks án atvinnu en 56,5% á Spáni.