Leitarstrengurinn „bank run“, eða bankaáhlaup, hefur ekki verið jafn mikið notaður á Google leitarsíðunni frá því að mælingar hófust í ársbyrjun 2006. Niðurstöðurnar eru birtar með þeim hætti að umfang leitar er mælt sem hlutfall af meðalumfangi á tímabilinu. Samkvæmt þessu hefur umfang leita með strengnum "bank run" undanfarna daga verið 5,5 sinnum meira en meðaltal slíkrar leitar frá 2006. Ekki hefur jafn oft verið leitað að upplýsingum um bankaáhlaup frá sumrinu 2008, þ.e. rétt í aðdraganda bankahrunsins.

Það vekur athygli að það er einkum fólk í Singapúr sem er að leita upplýsinga og frétta um bankaáhlaup, en það skýrist ef til vill af því að opinberir aðilar, fyrirtæki og einstaklingar í Singapúr eiga kröfur á evrópska banka sem nema um 60% af vergri landsframleiðslu í Singapúr.

Hins vegar ætti ekki að koma á óvart að það tungumál sem oftast er notað til að leita að þessum upplýsingum er gríska. Gríðarlegur fjármagnsflótti hefur verið frá Grikklandi til ríkja sem talin eru öruggara skjól fyrir peninga, einkum ef til þess kemur að grísk stjórnvöld kasta evrunni  og taka upp drökmuna að nýju.

Sjá nánar á Google Trends .