Arðgreiðslur til hluthafa breskra fyrirtækja slógu nýtt met á öðrum ársfjórðungi, að því er segir í frétt Financial Times. Arðgreiðslur námu samtals 25,3 milljörðum punda, andvirði um 4.700 milljarða króna, í fjórðungnum sem er 1,4 milljörðum pundum meira en á þriðja fjórðungi 2012, sem til þessa var metfjórðungurinn.

FT vitnar í ársfjórðungslega skýrslu Capita Registrars sem hefur tekið saman upplýsingar um heildararðgreiðslur frá ársbyrjun 2007. Þar kemur fram að verðbólga skýri að hluta aukninguna og því sé ekki gefið að raunvirði arðgreiðslna á öðrum fjórðungi þessa árs sé meira en fyrir bankahrunið 2008.

Þrátt fyrir háar arðgreiðslutölur nú hefur Capita breytt arðgreiðsluspá sinni fyrir árið í heild sinni og spáir því að arðgreiðslur á þessu ári muni nema 78,1 milljarði punda. Upphaflega var gert ráð fyrir því að arðgreiðslur fyrir árið í heild myndu nema 81 milljarði punda.