*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 26. mars 2018 12:21

Aldrei meiri hækkanir utan höfuðborgar

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis á landsbyggð tók stökk en lengsta tímabil verðbólgu undir markmiðum virðist nú vera lokið.

Ritstjórn
Árborg er eitt þeirra sveitarfélaga þar sem borið hefur á aukinni eftirspurn íbúðarhúsnæðis sem aldrei hefur mælst hærri utan höfuðborgarsvæðisins og síðustu þrjá mánuði.
Haraldur Guðjónsson

Þriggja mánaða hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins hefur aldrei mælst hærra frá upphafi mælinga árið 2000.

Þetta kemur fram í greiningu Arion banka á nýbyrtum tölum Hagstofunnar um hækkun verðbólgunnar, en hún hefur ekki verið hærri síðan í byrjun árs 2014 eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun. Arion banki býst þó við að verðbólgan fari aftur í verðbólgumarkmið í apríl og verði við það mark fram á haust þegar þeir spá því að hún lækki á ný.

Íslandsbanki segir hins vegar ekki víst að verðbólgan fari aftur undir verðbólgumarkmið bankans á næstunni. Það tímabil verðbólgu undir markmiði sem nú er lokið hafi verið einsdæmi vegna lengdar þess. Greining Íslandsbanka bendir á að með 0,3% verðhjöðnun án húsnæðis sé farið að draga saman með vísitölunum með og án húsnæðis. Hafði Íslandsbanki spáð 0,4% hækkun nú milli mánaða, en Arion banki 0,45%, en raunhækkunin nam 0,56%.

Dregur úr líkum á stýrivaxtalækkun

Íbúðaverð hefur hins vegar hækkað um 13,2% síðustu 12 mánuði sem er eilítil lækkun frá því þegar hækkunartakturinn var hæstur síðasta sumar í um 24%. Setur Íslandsbanki það í samhengi við fréttir um vaxandi eftirspurn eftir eignum í þéttbýliskjörnum við jaðar höfuðborgarsvæðisins og nefna sem dæmi Reykjanesbæ og Árborg.

Bendir Íslandsbanki á að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi búist við því að hægari hækkun íbúðaverðs myndi vega á móti þverrandi áhrifum af lækkun innflutningsverðs. Þessar fréttir um áframhaldandi hækkanir íbúðaverðs gætu því dregið úr líkum á að stýrivextir lækki í bráð.

Hefur vísitala íbúðaverðsins utan höfuðborgarsvæðisins hækkað um 3,2% síðasta mánuðinn, og undanfarna þrjá mánuði nam hækkunin 10,6%. Nefndi hagstofan sérstaklega reiknaða húsaleigu sem og verðhækkun á fötum og skóm sem ástæður fyrir verðbólguhækkuninni nú. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1% og verð á sérbýli um 0,7%.

Flugfargjöld hækka umfram væntingar

Aðrir undirliðir sem greiningardeild Arion banka benda á að hafi hækkað umfram væntingar þeirra eru flugfargjöld til útlanda sem hafi hækkað um 3%, en þeir höfðu gert ráð fyrir 2% hækkun. Matarkarfan hækkaði um 0,18% en bensínverð hélst óbreytt á milli mánaða. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði svo um 1,6%.

Jafnframt hafi dregið úr verðlækkunum vegna innflutnings erlendra vara. Arion banki spáir því samt sem áður að 12 mánaða taktur verðbólgunnar lækki á ný og fari niður í 2,5% verðbólgumarkmiðið í apríl og haldist í kringum það í sumar og fram á seinni hluta ársins.

Eftir það fari hún svo að síga á ný, meðal annars vegna þess að 1. maí tekur gildi samningur milli Íslands og ESB sem fella niður tolla á yfir 340 vörunúmerum, þar á meðal súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti.