Vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,8% í nóvember. Miklar hækkanir hafa verið á fasteignaverði undanfarna mánuði og hefur fasteignaverð hækkað um 8,7% síðastliðna 3 mánuði eða frá því að nýju íbúðarlán bankana komu til sögunar. Athygli vekur að aldrei hefur verið jafnmikil hækkun á fasteignaverði líkt og verið hefur síðastliðna 3 mánuði. Þetta er mun meiri hækkun en var þegar fasteignverð hækkaði hvað mest á árunum 1999 til 2000 en þá náði 3 mánaða hækkun fasteignaverðs mest 7,2% hækkun.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að athyglisvert er hversu mikið fasteignaverð hefur hækkað í ljósi þess hvað það var orðið hátt nú í sumar, með tilliti til launa og byggingarkostnaðar. Samkvæmt fasteignalíkani Greiningardeildar sem var kynnt nú í haust hefði fasteignaverð staðið í stað eða lækkað í vetur ef ekki hefði komið til nýju fasteignalánanna. Hins vegar var bent á það greiðslugeta hefur aukist u.þ.b. 30% í kjölfar lægri vaxta miðað við 80% skuldsetningu. Þannig eru afborganir af 19 milljón króna íbúð nú svipaðar og af 15 milljón króna íbúð áður.

Síðastliðna 12 mánuði hefur fasteignaverð hækkað um 17,3% og hefur hækkun fasteignverðs síðastliðið ár ekki alveg náð sömu hæðum og þegar það hækkaði mest á árunum 1999 til 2000 en þá fór tólf mánaða hækkunin mest upp í 24%. Hins vegar er hætt við því að þess verði skammt að bíða að 12 mánaða hækkun fasteignaverðs slái fyrra met.

Ólíkt þróun fasteignaverðs nú og í síðustu uppsveiflu á fasteignamarkaði er að sérbýli hefur hækkað mun meira en fjölbýli og nemur 12 mánaða hækkun á sérbýli 22,4% og hefur aldrei hækkað meira. Hins vegar hefur fjölbýli hækkað um 15,9% síðastliðna 12 mánuði. Þetta er í takt við þá þróun sem Greiningardeild spáði í haust en lækkun vaxta og greiðari aðgangur að fjármagni leiðir til þess að stærri og betri eignir verða eftirsóttari og að ákveðin skölun verði á markaðnum. Þannig er allsendis óvíst að allar eignir hækki í verði, eins og t.d. smærri íbúðir, kjallaraíbúðir og íbúðir á síður eftirsóttum svæðum.