*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 12. desember 2007 16:29

Aldrei meiri rafmagnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu

Ritstjórn

Rafmagnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu náði nýjum hæðum s.l. mánudag. Þá fór aflið í fyrsta skipti yfir 200 megavött. Umfangsmikil jólalýsing ásamt hefðbundinni notkun í atvinnulífinu eru ástæður þessarar miklu notkunar, samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Á árum áður var reglan sú að álagstoppurinn var á aðfangadagskvöld. Mörg ár eru frá því það mynstur breyttist og er ástæðan sú að orkunotkun atvinnulífsins vegur orðið miklu þyngra í heildarnotkuninni en rafmagnsnotkun heimilanna.

Fjórðungslækkun raforkuverðs

Í tilkynningunni segir að frá því að Orkuveita Reykjavíkur hóf sjálfstæða rafmagnsframleiðslu á Nesjavöllum hefur raunverð á raforku frá fyrirtækinu lækkað um fjórðung en um heilan þriðjung ef miðað er við þróun vísitölu byggingakostnaðar. Heitt vatn hefur einnig lækkað verulega í verði á sama tíma.

Þetta er þvert á þá þróun sem á sér stað annars staðar í veröldinni. Í takti við hækkandi verð á olíu, kolum og gasi rýkur raforkuverð upp úr öllu valdi. Heimsbyggðin sækir eingöngu um 13% orkunotkunar sinnar til endurnýjanlegra orkugjafa. Sama hlutfall á Íslandi er 72%.

Samanburður á raforkuverði á Norðurlöndum leiðir þennan mun skýrt í ljós. Í upphafi þessa árs gerði evrópska hagstofan Eurostat samanburð á raforkuverði í löndum Evrópusambandsins. Með því að bera niðurstöðu þeirrar könnunar við samsvarandi verðskrá Orkuveitu Reykjavíkur kom í ljós að verðið er lægst hér á landi. Í ljósi þróunar olíuverðs á alþjóðamörkuðum undanfarnar vikur og mánuði má reikna með að verðmunurinn hafi aukist, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.