Landsframleiðsla á evrusvæðinu hefur aldrei dregist meira saman en í lok síðasta árs, þegar óvæntar og slæmar hagtölur frá Þýskalandi dýpkuðu kreppuna meira en talið hafði verið. Þetta kemur fram í FT þar sem segir að landsframleiðsla á þessu 16 ríkja svæði hafi dregist saman um 1,5% á síðasta fjórðungi ársins, sem sé sami samdráttur og í Bretlandi en meiri en í Bandaríkjunum þar sem hann hafi verið 1%.

Hagfræðingar telja að evrusvæðið muni dragast saman um allt að 2% á þessu ári. Gangi það eftir verður það mesti samdráttur frá síðari heimsstyrjöldinni.