Samdráttur hefur verið í brasilísku hagkerfi nú í tvö ár, samkvæmt nýjustu tölum, og hefur samdrátturinn ekki verið meiri síðan mælingar hófust.

Árið 2016 mældist samdrátturinn hafa náð 3,6%, sem þýðir að hagkerfið er nú 8% minna en það var í desember árið 2014.

Lækkun hrávöruverðs hefur haft mikil áhrif á landið sem og mikil átök í stjórnmálalífi landsins, sem dregið hefur úr trausti fjárfesta. Greinendur hafa þó trú á því að hagkerfið sé á leiðinni að fara að rétta úr kútnum að því er BBC greinir frá.

Í ágústmánuði síðasta tók Michel Temer við völdum sem forseti landsins eftir að Dilma Roussef var vikið frá störfum í kjölfar ákæru á hendur henni.

Temer hafði verið varaforseti landsins frá árinu 2011 og starfandi forseti frá því í maí, og er hann elsti einstaklingurinn sem tekið hefur við sem forseti í landinu frá upphafi, en hann er 75 ára gamall.