Tölvu- og internetnotkun fólks í aldurshópnum 65-74 ára hefur stökkbreyst á síðustu árum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 2002 hafði aðeins tæplega þriðjungur fólks í þessum aldurshópi notað internetið á síðustu þremur mánuðum. Þetta hlutfall var um 50% árið 2007. Hlutfallið var hins vegar komið upp í 88,3% á síðasta ári.

Árið 2009 höfðu 30% fólks í aldurshópnum 65-74 ára aldrei notað tölvu. 39% fólks í aldurshópnum höfðu aldrei notað internetið árið 2009. Á síðasta ári höfðu hins vegar aðeins 4,1% fólks á aldrinum 65-74 ára aldrei notað tölvu og 8,9% fólks í aldurshópnum aldrei notað internetið.

Hlutfallið minnkar hratt, því árið 2013 höfðu 11,5% fólks í aldurshópnum aldrei notað tölvu og 18,9% aldrei notað internetið.

Aðsókn á tölvunámskeið hefur ekki minnkað

Nokkur fyrirtæki bjóða upp á tölvunámskeið, meðal annars námskeið sem eru sérsniðin fyrir fólk í þessum aldurshópi. Halldór Kristjánsson, framkvæmdastjóri og eigandi Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar, segir að aðsókn á viðkomandi námskeið hafi ekki minnkað undanfarin ár. Fólk sem komi á þessi námskeið sé í þeirri stöðu að kunna lítið sem ekkert á tölvu. „Ég hef svo sem ekki séð að það hafi breyst í gegnum árin,“ segir Halldór.

Halldór segir aðspurður að hann verði var við að samfélagið kalli enn í auknum mæli á tölvuþekkingu. „Fólk sem kemur á námskeið er fólk sem finnur til smæðar sinnar. Það hefur mjög lítið notað tölvu og veit afskaplega lítið um tölvunotkun,“ segir hann.

Hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir fari fram á það að fólk stofni sín eigin heimasvæði á vefsíðum þeirra. „Það er meir og meir sem þjóðfélagið er að kalla á það að fólk kunni á að opna svona síður, stofna svona síður og nota þær síðan.“