Umferðin hefur aldrei mælst meiri á Hringveginum í nokkrum mánuði frá upphafi mælinga en að meðaltali fóru um 108 þúsund ökutæki daglega um lykilsniðin 16 sem að Vegagerðin notar til að mæla umferð. Til samanburðar fóru 82 þúsund ökutæki um sömu snið fyrir tíu árum, árið 2007. Umferðin á Hringveginum hefur vaxið um ríflega 30% frá árinu 2007, „þrátt fyrir að eitt efnahagshrun hafi átt sér stað á tímabilinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.

Umferðin í júlí á Hringveginum jókst um 7,3% milli ára sem er mikil aukning en heldur minni en hefur verið síðastliðna mánuði. Þannig að heldur dregur úr aukningarhraðanum. Búast má við um 9% aukningu í ár sem er heldur minni aukning milli ára en aukningin varð í fyrra. Mest jókst umferðin um Norðurland eða um 12% en minnst jókst umferðin um Suðurland.