Aldrei hefur verið leitað eins oft að Klaustur bar á Google leitarvélinni eins og síðustu vikur. Nafnið Gunnar Bragi hefur verið Google-að 60% oftar en Sigmundur Davíð undanfarna daga að sögn Davíðs Lúthers Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra auglýsingastofunnar Sahara.

Davíð segir að samkvæmt Google hafi Íslendingar leitað meira að Kringlunni en Smáralind í desember 2017. „Það er margt athyglisvert þegar skoðað er hverju Íslendingar leita að á Google. Leitarorðið Kringlan er slegið inn um 27.000 sinnum í desember 2017 á meðan Smáralind var einungis 18.000 sinnum slegið inn,“ segir Davíð.

„Það er líka gaman að segja frá því að fótanuddtæki var um 170 sinnum slegið inn í desember í fyrra. Greinilegt að ennþá er eftirspurn eftir því eftir margra ára vinsælir hér á landi.“ Davíð segir Íslendinga t.d. leita helmingi meira að Vínbúðinni í desember heldur en nóvember.

„Síðan nær leitarfrasinn Hagkaup hámarki yfir árið á milli jóla og nýars. Þá er fólk líklega að athuga  opnunartíma hugsanlega til að skipta gjöfum eða versla inn í matinn fyrir áramótin," segir Davíð sem segir að leitir detti niður í janúar, en þó ekki á öllum sviðum.

„Leitir eftir verslunum og þjónustu róast töluvert í janúar en hins vegar eru önnur orð sem fara á flug. Til dæmis er mikið leitað að líkamsrækt og Tenerife í janúar."

Asos að verða vinsælasta erlenda netverslunin

Netverslun á Íslandi hefur færst í aukanna að undanförnu eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um og kemur það greinilega í ljós á leitarvélum.

„Sú erlenda netverslun þar sem Íslendingar versla mest er líklega fataverslunin ASOS. Það er leitað að meðaltali 9.900 sinnum að ASOS í hverjum mánuði. Það dreifist nokkuð jafnt yfir árið, en er þó mest í nóvember. Það er líklega vegna Black Friday." segir Davíð sem segir t.d. athyglisvert að skoða Klaustur bar málið.

„Það hefur aldrei verið eins mikið leitað að Klaustur Bar eins og síðustu daga. Nafnið „Gunnar Bragi" var gúgglað 60% oftar en Sigmundur Davíð nú í desember. Nafnið „Sigmundur Davíð" hefur þó oft áður verið meira leitað að. Til dæmis var nafnið meira gúgglað í október 2017, en það var á þeim tíma sem Sigmundur kleif Framsóknarflokkinn. Þá var hann gúgglaður um  80% oftar heldur en núna. Hins vegar er enn verið að leita mikið af þessu nafni og því gætu hlutföllinn breyst."