Þingflokksformaður Pírata útilokar stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata segir Sjálfstæðisflokkinn hafa stimplað sig út úr samstarfsmöguleikanum við Pírata þegar hann hafnaði tillögum um kerfisbreytingar.

Píratar nær Viðreisn en VG

„Mál eins og Stjórnarskráin, hvernig þingið fúnkerar, hvernig stjórnsýslan virkar og breytingar á henni, sem og undirstofnunum ráðuneyta,“ segir Birgitta í Kjarnanum , en nefnir að Píratar geti fundið samhljóm með Viðreisn.

„Að mörgu leyti erum við nær þeim heldur en VG um margt - en það er ómögulegt að sjá hvernig þetta fer. Ég hef aldrei séð jafn mikla óvissu í kring um nokkrar kosningar, þegar það er svona stutt í kosningar, ef þær verða þá í haust,“ segir Birgitta og telur þetta einhverjar mikilvægustu kosningar í sögu landsins.

Fór ekki vel að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokk

Þar kemur jafnframt fram að stöllur hennar, formenn VG og Samfylkingarinnar, þær Katrín Jakobsdóttir og Oddný Harðardóttir, taka í sama streng og útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

„Við liggjum lengst frá Sjálfstæðisflokknum í okkar stefnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, en Oddný Harðardóttir tekur enn harðari afstöðu.

„Það verður aldrei samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það er of stutt síðan við vorum með þeim í ríkisstjórn og það fór ekki vel. Framsókn er auðvitað með félagslega taug en við mundum alltaf snúa okkur að stjórnarandstöðunni fyrst,“ segir Oddný.

Leggja þær allar áherslu á að kosið verði í haust, en Sigmundur Davíð hefur sagt mikilvægast að ríkisstjórnin fái að klára verkefnaáætlun ríkisstjórnarsáttmálans sem miðist við fjögur ár.