Exton er þekkingar- og þjónustufyrirtæki sem hefur meira en tuttugu ára reynslu í leigu og sölu á lausnum fyrir ljós, hljóð og mynd á hinum ýmsu viðburðum, meðal annars fyrir ráðstefnur og árshátíðir.

Ingólfur Magnússon er framkvæmdastjóri leigudeildar fyrirtæksins, en hún hefur að hlutverki útleigu og uppsetningu tæknibúnaðar fyrir hina ýmsu viðburði. Aðspurður hvernig verkefnastaðan sé hjá fyrirtækinu segir hann að alltaf sé nóg að gera.

„Síðasta ár var metár hjá okkur og ég hef aldrei séð bókanir koma jafnhratt inn og núna svo verkefnastaðan er mjög sterk á þessu ári. Einu sinni var janúar frekar daufur mánuður en það hefur breyst,“ segir Ingólfur.

Hann segir einnig að starfsemi fyrirtækisins í dag sé mjög ólík þeirri sem það fékkst við þegar það var stofnað árið 1992. „Þegar Exton byrjaði var þetta bara hljóðkerfi fyrir tónleika og sveitaböll en núna er þetta orðið svo miklu stærra. Við þurfum að hanna viðburðina og teikna þá upp sem getur verið vikuvinna áður en við förum að framkvæma. Svo þetta er dálítið stærra en margir halda.“

Nánar er fjallað um málið í Fundum og ráðstefnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .