Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir árið 2016 hafa verið besta ár Marel frá upphafi.

Í árslok 2015 tilkynnti Marel um yfirtöku á hollenska fyrirtækinu MPS Meat Processing systems. Hvað lá þar að baki?

„Þegar við vorum langt á veg komin með endurskipulagningu okkar vorum við tilbúin að taka næsta skref. Við gengum frá kaupum á MPS Meat Processing Systems í ársbyrjun 2016. MPS er leiðandi í frumvinnslu á kjöti meðan við erum sterkari á seinni stigum vinnslunnar og í hugbúnaði. Við vorum því í raun að endurtaka leikinn sem við höfðum gert í kjúklingi nokkrum árum fyrr með yfirtökunni á Stork. Með MPS innanborðs gátum við því boðið viðskiptavinum okkar í kjötiðnaði upp á heildarlausnir. Við lukum við yfirtökuna án þess að gefa út nýtt hlutafé og héldum okkur innan okkar fjármagnsskipulags en samhliða yfirtökunni tryggðum við hagstæða langtímafjármögnun. Samþætting fyrirtækjanna hefur gengið vel og við erum mun sterkari samstarfsaðili gagnvart viðskiptavinum eftir þessa yfirtöku.“

Metár að baki

Árið 2016 var besta ár Marel frá upphafi. Veltan nam 983 milljónum evra borið saman við 819 milljónir árið áður. EBIT var 14,6% af tekjum. Hagnaður var 76 milljónir evra og hækkaði um þriðjung milli ára. Fjárhagsstaða félagsins var sterk með nettóskuldir á móti EBITDA x2,25. Sölumet var slegið í fjórða ársfjórðungi og dreifðist salan vel milli kjöt-, kjúklinga- og fiskiðnaðar um heim allan.

Hvað kom til að árið 2016 var besta ár Marel frá upphafi?

„Fjölmargir þættir stuðluðu að þessari ánægjulegu niðurstöðu. Fyrst og fremst er það samhent og fjölbreytt teymi sem vinnur að sama markmiði. Að auki er það yfirtakan á MPS. Þá hefur aukinn fókus í markaðsstarfi og markviss nýsköpunarvinna síðustu ára skilað sér í sterkari lausnum. Við höfum aldrei kynnt jafn margar nýjar lausnir til leiks og árið 2016. Eftir að við þrengdum okkar vöruframboð náðum við að einbeita okkur betur að því að styrkja vöruframboðið með nýsköpun í hátæknilausnum. Loks tóku markaðsaðstæður við sér fyrir stærri verkefni á seinni hluta ársins sem varð til þess að pantanir hafa aldrei verið hærri heldur en í síðasta ársfjórðungi.

Í þeim fjórðungi tryggðum við tímamótaverkefni í kjúklingi í Suður-Kóreu, í kjöti í Bandaríkjunum og Mexíkó, í Noregi í laxaiðnaði og loks í Svíþjóð í áframvinnslu. Þessir viðskiptavinir eru að reisa stórar verksmiðjur með allra nýjustu tækni sem er í boði í matvælaiðnaði. Þeir eru færa sig yfir í sjálfvirka, vélknúna ferla þar sem upplýsingaöflun og vinnsla spilar stórt hlutverk. Við erum að þróa nýjar hátæknilausnir með þessum viðskiptavinum sem við getum svo endurtekið fyrir aðra.

Samkeppnisstaða okkar hefur því styrkst. Við erum að takast á við ný verkefni og setja upp tímamótaverksmiðjur með viðskiptavinum okkar í kjöti, fiski og kjúklingi í Asíu, SuðurAmeríku, Norður-Ameríku og Evrópu ásamt spennandi verkefnum í Afríku og Mið-Austurlöndum. Á síðustu árum erum við mjög hreykin af landvinningum í V-Afríku þar sem við erum að aðstoða heimamenn að nútímavæða kjúklingavinnslu. Þar erum við að sá fræjum sem munu vaxa vel til framtíðar, en aðstæður í Afríku eru hinar ákjósanlegustu til landbúnaðar á sama tíma og álfan er nettó innflytjandi á landbúnaðarvörum.

Gæði tekna eru einnig mikil hjá Marel og má nefna að þjónustu- og varahlutatekjur félagsins eru um 36% af heildartekjum til samanburðar við um 7% af heildartekjum árið 2005. Þjónustutekjur koma inn sama hvernig árar á markaði þar sem viðskiptavinir okkar vilja ávallt tryggja hámarksafköst.“

Nánar er rætt við Árna Odd Þórðarson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .