Án þess að vera meðvitaðir um það njóta fjölmargir Íslendingar þjónustu Point næstum daglega en fyrirtækið sérhæfir sig í lausnum á greiðslukerfum fyrir fyrirtæki. Meginstarfssvið þess er sala á posum til Valitors og Borgunar en samkvæmt Elvari Guðjónssyni er helsta áskorun fyrirtækisins um þessar mundir að klára verkefnið „Pinnið á minnið“. „Nú þegar er meginþorri íslenskra kaupmanna kominn með þá lausn. Enn fremur erum við að ljúka verkefni með snertilausum lausnum með kortafyrirtækjunum þar sem viðskiptavinir geta greitt fyrir kaup með snertilausu korti eða síma í okkar posum.

Langflestir posar sem eru á markaðinum á Íslandi í dag eru tilbúnir fyrir slíka lausn og verður hún sett upp í þeim flestum nú á næstu vikum með uppfærslu í hugbúnaði á þeim.“ Elvar bætir því við að það hafi skipt sköpum í gegnum árin að fyrirtækið er óskuldsett. „Point er líklega eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem er með tæplega 20 ára kennitölu og hefur aldrei tekið nein lán í neinu formi frá upphafi.“

Viðtal við Elvar Guðjónsson birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .